Fara í efni


BRAKANDI FERSK HÖRPUSKEL

Elías Blöndal Guðjónsson

07.12.2023

Það var notalegt að koma inn úr frostgrimmdinni og finna leðurlyktina á barnum á Hótel Holti. Þar hefur lítið eða ekkert breyst í áranna rás en gott er að vita til þess að allavega eitthvað í borginni er ekki háð duttlungum utanborðsafla. Það er visst öryggi í kyrrstöðunni.

Hótel Holt var byggt af Þorvaldi Guðmundssyni, sem var kenndur við Síld og fisk. Það opnaði 12. febrúar 1965. Það eru um 40 herbergi á hótelinu og í því er líklega að finna stærsta listasafn í einkaeigu hér á landi.

Hákon Már Örvarsson hefur tekið yfir eldhús og borðsal hótelsins fyrir sinn jóla skammstað (e. pop-up) . Ritstjórn Smakklands lét þetta tækifæri ekki fram hjá sér fara.

Það er jafn notalegt að koma inn í borðsal Holtsins eins og á barinn. Þar hefur farið fram afar smekkleg uppgerð nýverið. Meðal annars er nýtt ullarteppi á gólfinu í Tartan mynstri sem kemur afar vel út. Mynstrið er reyndar ekki að finna í opinberri skrá skoska Tartan-sambandsins en það er ekki óalgengt að teppamynstur af þessu tagi séu innblásin af Tartan þótt viðkomandi húsnæði hafi ekki skoska arfleifð. Það er tignarlegt að virða fyrir sér verk gömlu meistaranna á veggjum borðsalarins.  

IMG_7332.jpg__PID:14272024-8a3c-462b-ade1-6a50ed357823
IMG_7325.jpg__PID:10142720-248a-4c96-abed-e16a50ed3578

Eftirvæntingin var mikil þegar maturinn var borinn á borð en líkt og Smakklandið fjallaði um fyrir um viku síðan var um að ræða 6 rétta seðil.

Ritstjórn Santé hefur sjaldan eða aldrei fengið jafn brakandi ferska hörpuskel á veitingastað. Hún er afar gaumgæfilega framreidd með eplum, límónu, íslenskri wasabi rót, karsa og smá rjóma. Hér er ekkert eldað enda engin þörf á því. 

Laxinn var úr landeldi, mjög stinn og flott stykki. Áferð fisksins kom á óvart og ljóst að hér hefur verið vandað til verka við reykingu og aðra meðhöndlun. Það var gott að fá hrognin með. 

Grjótkrabba tortellini-ið er nokkuð sem ritstjórnin hefur ekki smakkað áður. Þegar þessi réttur var snæddur var haft á orði á borðinu að best væri nú að grjót halda kjafti.

Með aðalréttunum tveimur tók Hákon þá skynsamlegu ákvörðun að reiða fram andalifur. Fyrri rétturinn var  sk. ,,til sjávar og sveita réttur" (e. Surf and turf). Þorskur úr sjónum og andalifur úr sveitinni. Með þessu var mangó gljái, seljurót og síðast en ekki síst, ferskar trufflur. Ef þessi þorskur væri miði í Happdrætti Háskólans þá væri stór vinningur á honum.

Innbakaða dúfan með andalifrinni og Madeira sósunni var e.t.v. það klassískasta á seðlinum og á þessum tímapunkti fór seddan örlítið að sverfa að. Eldunin og framreiðslan á þessari dúfuböku var óaðfinnanleg.

Þegar kom að eftirréttinum voru taugaendarnir í maganum farnir að senda boð til heilans um að nú væri lag að hætta. Sá sem þetta ritar getur hins vegar ekki látið góða mús fram hjá sér fara en yfir eftirréttinum sögðu borðgestir sögur af músaveiðum fyrri ára.

Allt í allt er ekki hægt að kvarta undan neinu hjá Hákoni, líkt og lesendur gætu gert sér í hugarlund. Þjónustan í borðsalnum var frábær. 

IMG_7335.jpg__PID:2720248a-3c96-4bed-a16a-50ed357823c2
IMG_7340.jpg__PID:20248a3c-962b-4de1-aa50-ed357823c223
IMG_7344.jpg__PID:248a3c96-2bed-416a-90ed-357823c2233e
image_123650291.jpg.webp__PID:293f0c2e-e2fd-4450-a2ad-4741f048ab84


Í boði er vínpörun sem inniheldur m.a. eitt vín frá Santé. Fleiri vín frá Santé eru í boði á staðnum, m.a. Drappier kampavín. Ritstjórn Smakklands er hins vegar kresin á vín og greiddi tappagjald af nokkrum flöskum til þess að geta samhliða veitingarýninni sinnt rannsóknarstörfum á landbúnaðarafurðum frá Búrgúndí. Nýta þarf tímann vel í sprotafyrirtækjum. Vínseðill Smakklands var svofelldur:

2019 Domaine Paul Pillot Chassagne-Montrachet 1er Cru La Romanée

1999 J.F. Coche-Dury Meursault-Caillerets

2016 Domaine Humbert Fréres Charmes-Chambertin Grand Cru

2016 Lignier-Michelot Clos de la Roche Grand Cru

2006 Domaine Fourrier Gevrey-Chambertin 1er Cru Cherbaudes

2016 Armand Rousseau 1er Cru Clos St. Jacques

IMG_7363.jpg__PID:3c962bed-e16a-40ed-b578-23c2233ecd99

MATSEÐILL

HÖRPUSKEL
Fersk hörpuskel úr Ísafjarðardjúpi „Crudo“Epli, lime, Nordic wasabi, kryddjurtaolía, karsi, rjómi

LAX / STYRJUKAVÍAR
Reykilmaður Lax úr landeldi. Styrjukavíar, laxahrogn, sítrónugras, engifer, avocado

GRJÓTKRABBI
Grjótkrabba Tortellini, paprikumauk, Bouillabaisse frauðsósa

BACALAO / FOIE GRAS
Léttsaltaður þorskhnakki og andalifur. Salsaverde, mangó gljái, sólblómafræ,seljurót og ferskar trufflur

DÚFA / FOIE GRASS
Smjördeigsinnbökuð dúfubringa með andalifur og ferskum trufflum, Madeira sósa

SÚKKULAÐI / PERA
Omnom súkkulaðifrauð, kryddsoðin pera, chantilly rjómi

Allar frekari upplýsingar má nálgast í síma 5525700 eða með senda tölvupóst til hakon.chef@gmail.com.

AF SEÐLINUM

MATUR

VÍNVIÐURINN

BJÓRVAKTIN