Fara í efni

Arnar Sigurðsson og
Elías Blöndal Guðjónsson

25.05.2023

HAUSLAUS Í BÚRGÚNDÍ


MOREY-SAINT-DENIS

Árið 250 setti biskupinn af Lutesíu (nú úthverfi Parísar) met sem ekki hefur verið slegið síðan. Vegna trúvillu töldu þáverandi ráðamenn nauðsynlegt að afhöfða biskupinn sem náði að ganga um 6 kílómetra leið með höfuðið undir hendinni og hefur það met ekki enn verið slegið enda lítið verið keppt í almennu hausleysi. Það ber að hafa í huga að tískusveiflur í trúarbrögðum voru annars eðlis heldur en nú til dags, t.d. var ekki búið að finna upp lofstlagstrúnna. Eðli málsins samkvæmt komst biskupinn í dýrðlingatölu á meðal Frakka fyrir afrekið. En þó svo að biskupinn hafi ekki lifað gönguna af lifir minning hans áfram því ýmis mikilvæg kennileiti hafa verið nefnd eftir honum eins og t.d. St. Denis hverfið hvar þjóðarleikvangurinn er staðsettur og vinsæl verslunargata samnefnd sem tengir hverfið inn í miðborgina.

Í Burgundy héraði er svo þorpið Morey-Saint-Denis en seinni hluti nafnsins er dregið af bestu ekru þorpsins St. Denis og eru vínin að jafnaði nefnd eftir þorpsheitinu og/eða vínekru.

Bestu ekrurnar eru rauðleitar ,,Grand Cru”. Fyrsti flokkur "1er cru” appelsínugular. Þorpsvín eða "village” gular. Láglendisekrur sýndar gráar gefa af sér vín sem kallast "Bourgogne”.

Rauðvín: 88,48 hektarar, þar af 39,42 hektarar 1er Cru!

Hvítvín: 5,68 ha, þar af 1,66 hektarar 1er Cru.

Stór hluti þorpsins er 1er Cru ekrur, samtals 20 talsins: Les Genavrières, Monts Luisants, Les Chaffots, Clos Baulet, Les Blanchards, Les Gruenchers, La Riotte, Les Millandes, Les Faconnières, Les Charrières, Clos des Ormes, Aux Charmes, Aux Cheseaux, Les Chenevery, Le Village, Les Sorbès, Clos Sorbè, La Bussière, Les Ruchots og Côte Rôtie.

Í þorpinu eru einnig fimm Grand Cru ekrur: Clos de Tart, Bonnes Mares, Clos de la Roche, Clos Saint-Denis, Clos des Lambrays.

DOMAINE DE LAMBRAYS

Þó að víngerðarhúsið eigi rætur allt til ársins 1365, má segja að mikilvægasta kaflann í sögunni sé einmitt verið að skrifa núna þessi árin allt frá 2014 þegar LVMH keypti húsið. Fyrsta heimsókn okkar hingað var árið 2006 til að smakka 2005 árganginn sem þá var á tunnum. Í nokkur ár lágu heimsóknir niðri en hefur verið viðhaldið síðan 2015. Þegar okkur ber að garði í fyrra, mátti ætla að ekkert hafi í skorist og engu breytt, sömu gömlu kalksteinshúsin en þegar hurðinni er lukið upp blasir við eitt fegursta víngerðarhús veraldar allt endurnýjað með nýjustu tækni og aðstöðu þar sem hægt er að víngera hvern og einn skika sérstaklega áður en öllu er svo blandað saman í hið endanlega vín Clos des Lambrays. Þar sem jarðvegurinn er mismunandi innan ekrunnar er þessi aðferð mikilvæg m.a. til að víngerðarmeistarinn geti stilt af agnúa, t.d. týnt á mismunandi tíma, pressað með mismunandi hætti og valið eikartunnur við hæfi.

Alls eru vínin fimm, þar af tvö hvítvín frá Puligny-Montrachet, bæði 1er cru. Annar svegar Folatieres og hins vegar Caillerets en sú síðarnefnda er sú besta í sínum flokki.

Inngangsvínið er ekkert slor, Morey-Saint-Denis sem kemur úr fjórum skikum við þorpið. Morey-Saint-Denis 1er Cru Les Loups kemur næst, frábært vín sem í góðum árum ætti skilið að flokkast sem Grand Cru og svo sjálft aðalvínið Clos des Lambrays Grand Cru.

Það er mat færustu sérfræðinga að aðalvínið sé nú á pari við það allra besta sem svæðið framleiðir og þó að verðin séu há, muni þau bara hækka með vaxandi eftirspurn.

MOREY-SAINT-DENIS ÚR LOFTI

AF SEÐLINUM

MATUR

VÍNVIÐURINN

BJÓRVAKTIN