Fara í efni
PANTELLERIA

PANTELLERIA

Eyjan Pantelleria tilheyrir Ítalíu og er um 100 km frá Sikiley. Þar búa um 8.000 manns. Þetta er eldfjallaeyja, þar er mjög vindasamt, heitt á daginn og kalt á nóttunni. Fullkomnar aðstæður til þess að rækta capers.

Capersplantan á Pantelleria heitir spinosa nocellera upp á latínu en þetta afbrigði finnst eingöngu þarna. Eldfjallajarðvegurinn gefur capers frá Pantelleria sitt einstaka fínlega bragð. Það sem er líka sérstakt við plöntuna er að hún hefur fleiri lauf en aðrar capersplöntur. Tvö lauf leggjast yfir og vernda capersið á meðan það þroskast, sem varðveitir bragð þess og aðra eiginleika gegn steikjandi sólinni.

Capers frá Pantelleria er talið það allra besta hér á jarðríki og er það eina sem hefur upprunavottunina IGP (Indicazione Geografica Protetta).

LA NICCHIA

LA NICCHIA

La Nicchia hóf starfsemi árið 1949 þegar það byrjaði að flytja út capers ræktað af bændum á eyjunni Pantelleria. Árið 2005 tók fyrirtækið alla framleiðslukeðjuna yfir og sér um allt ferlið frá fræi til krukku.

Allt ferlið er í höndunum á vindbörnu starfsfólki La Nicchia. Uppskera er að meðaltali 14 sinnum á ári og capers er tekið af sömu plöntu á 8 daga fresti. Á venjulegum tínsludegi vaknar Gabriele Lasagni framkvæmdastjóri klukkan 4:30 og gengur til vinnu. Tínslan hefst um hálftíma síðar og stendur til kl. 10. Þá er orðið of heitt fyrir frekari tínslu, plöntugreinarnar orðnar mjúkar og hætta á að þær brotni. Tínslu er svo haldið áfram síðdegis frá 5 til 8.

Fyrirtækið framleiðir margar hliðarafurðir, s.s. capersber, caperslauf, caperssalt og ýmislegt fleira.